Yfirlestur

Við leitum af
bláu reiðhjóli

Yfirlestur Miðeindar er frábrugðinn þeim yfirlestrartólum sem áður voru í boði fyrir íslensku. Yfirlestur finnur stafsetningarvillur en grípur einnig málfræðivillur, sem krefjast frekara samhengis í setningu, ásamt ýmiss konar orðavalsvillum.

Yfirlestur athugar meðal annars hvort orð standa í réttu falli, tölu og kyni með tilliti til samhengis, svo sem hvort frumlag sé í réttu falli með sögn (ég hlakka, mig langar, mér þykir). Þannig nær yfirlestrartól Miðeindar einnig til málfræðinnar og getur gripið mun fleiri og flóknari villur í íslenskum texta en önnur sambærileg verkfæri.

Yfirlestur

Undir hatti Yfirlestrar eru tvö kerfi sem henta ólíkum þörfum.

Regluyfirlestur byggir á málgreiningarvél Greynis og finnur villur, flokkar þær og leiðréttir. Regluyfirlestur getur gefið ítarlegar leiðbeiningar um eðli villunnar og hvernig skuli forðast hana, ásamt því að vísa í heimildir, svo sem málfarsstaðal.

Regluyfirlestur hentar þeim sem hafa gagn af að vita í hverju villan felst og vilja sjá nákvæmlega hvað hefur verið leiðrétt, svo sem stúdentum, fjölmiðlafólki, skríbentum og skýrsluhöfundum hvers konar. Unnt er að bæta sérsniðnum reglum við Regluyfirlestur. Þannig er jafnframt hægt að styðja við samræmt málsnið og orðalag í útgefnu efni.

Tauganetsyfirlestur er mun þolnari gagnvart villum og getur því unnið með mun vandasamari texta, ásamt því að leiðrétta að einhverju leyti annað mengi en Regluyfirlestur. Tauganetsyfirlestur beitir annarri nálgun og „þýðir“ textann yfir á kórrétta íslensku, með þjálfun tauganeta m.a. á villumálheildum.

Kerfið leiðréttir því textann en gefur ekki sérstakar upplýsingar um það í hverju villan felst. Tauganetsyfirlestur hentar þeim sem vilja fá leiðréttan texta en hafa minni áhuga á upplýsingum um villurnar eða hafa ekki forsendur til að meta þær. Kerfið má nota til að hreinsa texta áður en hann er sendur í frekari greiningu.

Miðeind vinnur nú að því að tvinna kerfin saman til að ná fram ávinningi hvors kerfis í eina leiðréttingu.